Raunhæfar kröfur

Verkfærakistan
Spekingahornið

Raunhæfar kröfur!

Birtist fyrir
1/3/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
1/3/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Helgi Héðinsson

Sálfræðingur

helgi@lifogsal.is

Raunhæfar kröfur

Draumur íþróttafólks er að ná fullkominni frammistöðu í keppni, þar sem allt gengur upp og árangurinn í samræmi við það. Því miður er algengt að iðkendur falli í þá gryfju að gera þær kröfur til sjálfs sín að allt eigi að ganga upp. Slæmu fréttirnar eru þær að það að reyna að vera fullkominn er oft það versta sem hægt er að hugsa um fyrir og í keppni. Þegar iðkanda finnst hann þurfa að standa sig fullkomlega þá er í raun ekkert svigrúm fyrir mistök eða undantekningar. 

Hugur hans verður í kjölfarið heltekinn af því að forðast að gera mistök. Einkennandi hugsanir þarna eru „ég verð..“ og „ég má ekki..“.

Til dæmis: „ég verð að vinna“, „ég verð að skora“, „ég má ekki vera lélegur í dag“ og „ég má ekki missa boltann“. Svona kröfuharðar og ósveigjanlegar hugsanir geta haft mikil áhrif á iðkandann. Í fyrsta lagi eykur þetta andlegt álag sem birtist í kvíða og stressi.

Í öðru lagi getur þetta hæglega leitt til breytinga í hegðun ef ekki er gripið inn í. Þessar hugsanir vekja upp sterka tilhneigingu til að forðast að gera mistök sem leiðir til þess að iðkandinn passar sig of mikið í keppni og jafnvel á æfingum. Til að nefna dæmi um þetta þá sendir iðkandi í boltaíþróttum bara einfaldar sendingar til hliðar eða til baka, reynir ekki krefjandi sendingar, tekur engar áhættur og skýtur ekki á markið. Í tennis, badminton og blaki byrjar hann að hugsa meira um að verjast frekar en að sækja og sendir boltann eða fluguna nær miðjusvæði andstæðingsins í stað þess að senda til hliðanna og gera andstæðingnum erfiðara fyrir. Einnig er sterk tilhneiging til að gefast fyrr upp þegar illa gengur því honum finnst hann vera búinn að klúðra og hefur litla trú á því að hægt sé að bjarga því.

Í þriðja lagi hefur þetta veruleg áhrif á einbeitingu því þessar hugsanir taka til sín athyglina. Það gefur auga leið að á sama tíma er minni athygli á þeim afmörkuðu verkefnum sem krefjast einbeitingar svo hægt sé að ná góðri frammistöðu.

Þjálfarar eiga að vera vakandi fyrir því ef iðkandi, sér í lagi ungur iðkandi, er með ósveigjanlegar kröfur um fullkomna frammistöðu og of miklar áhyggjur af mistökum.

Það er í góðu lagi að vera meðvitaður um mistök svo hægt sé að vinna í þeim og halda áfram að verða betri. En þegar hugur iðkandans er orðinn heltekinn af þessu mun það grafa undan bæði frammistöðu hans og sjálfstrausti. Þjálfarar þurfa að vera vakandi fyrir vísbendingum um þetta. Sem dæmi þegar iðkandi forðast krefjandi aðstæður eins og að taka vítaskot þrátt fyrir góða færni eða virðist gefast upp eða verða vonlaus í kjölfar mistaka eða einhverskonar mótlætis. Ofþjálfun getur einnig gefið vísbendingu um þetta. Þjálfarar eru einnig í kjör stöðu til að ræða einslega við iðkandann og spyrja út í hverjar hugsanir hans eru við krefjandi aðstæður og gefa honum leiðbeiningar um hvernig má nálgast krefjandi verkefni með uppbyggilegra hugarfari.

Raunveruleikinn er sá að í íþróttum skiptir frammistaðan að sjálfsögðu máli og mistök geta verið mjög dýrkeypt. 

Meðvitaðir um þetta þá finnst iðkendum oft þörf á „fullkominni“ frammistöðu til að eiga möguleika á árangri eða sigri. Koma þarf iðkendum í skilning um að þessi krafa um engin mistök er mjög óhjálpleg og leiðir yfirleitt til lakari frammistöðu. Hjálpa þarf þessum iðkendum að endurskilgreina mistök. Til dæmis það að sleppa því endurtekið að skjóta á markið séu mistök en það að skjóta á markið þrátt fyrir að skora ekki séu ekki mistök. Þjálfarinn þarf að vera vakandi fyrir því að hrósa fyrir skottilraunina og gefa uppbyggilegar leiðbeiningar. Því miður geta þjálfarar lent í þeirri gildru að ýta undir kröfur um fullkomnun með því að hrósa einungis fyrir stig og mörk og það sem verra er að gagnrýna allar misheppnaðar tilraunir. Þetta eykur hræðslu við mistök hjá iðkandanum með fyrrnefndum afleiðingum.

Iðkandinn þarf í fyrsta lagi að átta sig á að þó tilgangurinn sé góður þá eru þessar kröfuhörðu hugsanir ekki hjálplegar. Draga þarf úr þeim og reyna að innleiða hugsanir eins og „ég ætla að ná árangri“ í stað „ég þarf...“. Í öðru lagi getur verið mjög öflugt að búa til einbeitingarplan sem felur í sér að iðkandi skilgreinir hlutverk sitt eingöngu út frá því hvað hann ætlar að framkvæma og hvaða hluti hann vill hafa í huga. Eftir því sem iðkandinn verður færari í að halda athyglinni á þessum atriðum því minna hugsar hann um mistök og afleiðingar þeirra. 

Sjá nánar um þetta í pistlinum „Einbeiting“ (http://synumkarakter.is/grein/einbeiting) eftir Hafrúnu Kristjánsdóttir hér á síðunni.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA