Um verkefnið

„Sýnum karakter“ er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni.  

Áherslan í íþróttaþjálfun hefur til þessa verið á líkamlega og tæknilega færni. Helsta markmið með verkefninu er því að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslu á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum, með þjálfun sálrænna og félagslegra eiginleika barna og ungmenna. Þjálfun karakters barna og ungmenna í íþróttum gerir íþróttafélögum kleift að sinna hvort í senn uppeldishluta og afrekshluta íþróttastarfsins, því góðir karakterar eru vel í stakk búnir til að takast á við lífið og einnig til að ná árangri í íþróttum.

Sýnum karakter er viðbót við stefnu og annað fræðsluefni íþróttahreyfingarinnar og byggir á því að nokkru leyti. Þar er bætt við hagnýtum upplýsingum og aðferðum sem þjálfarar geta nýtt sér í þjálfun barna og ungmenna með einföldum hætti. Verkefnið er þó hvorki altækt né endanlegt. Þvert á móti er því ætlað að þróast og dafna með framlagi þjálfara – og annarra sem áhuga hafa - sem hafa tækifæri til að koma með ábendingar og frekari fræðslupunkta inn í verkefnið. Verkefnið Sýnum karakter er að þessu sögðu hugsað sem upphaf að faglegri vinnu í þjálfun karakters en ekki sem endapunktur.

Markhópur verkefnisins Sýnum karakter er öðru fremur fyrst og fremst þjálfarar barna og ungmenna í íþróttum. Mikilvægt er þó að allir sem koma að íþróttastarfi barna og ungmenna, stjórnarfólk, starfsfólk, kennarar og foreldrar, kynni sér innihald og áherslur verkefnisins. Ef allir vinna saman að því að bæta og styrkja karakter ungu kynslóðarinnar þá verður framtíð þeirra - og okkar allra - enn bjartari og betri.

Grunnhugmyndin að verkefninu kemur frá dr. Viðari Halldórssyni, félagsfræðingi við Háskóla Íslands, og Valdimari Gunnarssyni hjá UMSK. Á undanförnum misserum hefur verkefnið verið prófað og þróað innan UMSK og er nú svo komið að stærstu íþróttahreyfingar Íslands, Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), hafa tekið höndum saman um það að koma verkefninu á framfæri út í íþróttahreyfinguna. Styrktaraðilar verkefnisins eru Íslensk Getspá og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Það er von okkar að verkefnið hjálpi þjálfurum og fleirum að tileinka sér aðferðir og leiðir til markvissrar þjálfunar karakters ungu kynslóðarinnar og beiti þeim í daglegu starfi. Það er í allra hag.

Sýnum karakter!

Lifandi
verkefni

Sýnum karakter er langtímaverkefni sem byggir á stöðugri söfnun og miðlun upplýsinga. Því er bæði ætlað að vera fagleg uppspretta og vettvangur lifandi umræðu um viðfangsefnið. Við hvetjum þjálfara, fagfólk, iðkendur og aðstandendur þeirra til að taka virkan þátt í því samtali sem verkefnið býður upp á.

Fagleg
umræða

Í alþjóðlegum samanburði stöndum við ákaflega framarlega þegar kemur að menntun þeirra sem sjá um þjálfun barna og unglinga á vegum íþróttahreyfingarinnar. Markmiðið með verkefninu er að efla þetta góða og faglega starf með markvissum hætti.

Miðlaðu
reynslunni

Hver er þín reynsla af þjálfun sálrænna og félagslegra þátta? Veistu af rannsóknum, greinum eða dæmum sem geta gagnast öðrum? Sendu okkur línu á synumkarakter@synumkarakter.is