Hvað er stuðningur?

Verkfærakistan
Spekingahornið

Birtist fyrir
22/9/2020
dögum síðan.
Birtist fyrir
22/9/2020
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Magnús Örn Helgason

Knattspyrnuþjálfari

Hvað er stuðningur?

Meðfylgjandi tilvitnanir eru úr bókum landsliðsfyrirliðanna Arons Einars Gunnarssonar og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur. Ég var svo lánssamur að rita sögu Söru í fyrra en Einar Lövdahl Gunnarssson skrifaði Aron - sagan mín árið 2018.

Mér verður stundum hugsað til Arons og Söru þegar ég fylgist með eða heyri af foreldrum sem ætla að „of-hjálpa" íþróttabörnunum sínum. Fólk reynir í auknum mæli að gera ráðstafnir eða fjárfestingar til að auka líkur barnsins á að slá í gegn. Til að atvinnumannadraumurinn rætist nú örugglega. Fókusinn hefur færst frá barninu sjálfu yfir til utanaðkomandi þátta.

- Barnið mitt þarf nýjustu takkaskóna

- Það þarf léttari legghlífar

- Það þarf einkaþjálfun

- Það þarf að skipta í stærra félag

- Það þarf að spila frammi

- Það þarf betri samherja

- Það þarf að æfa í knatthöll

Færum okkur aftur í sögur Arons og Söru.

- Sara æfði stundum fótbolta í reiðhöll eða á parketi

- Hún fór út að hlaupa og lék sér í fótbolta með pabba sínum

- Hún bar út Moggann á laugardagsmorgnum

- Hún var orðin lykilmanneskja í meistaraflokki tæplega 17 ára (þá eftir krossbandsslit og endurhæfingu)

- Hún sá mótlæti sem hvatningu

- Aron byrjaði líka 16 ára að æfa og spila með meistaraflokki

- Hann var á fullu í handbolta

- Hann vann í Bónus sem unglingur

- Hann var í stöðugri keppni við stóra bróður sinn.

- Hann var meðvitaður um styrkleika en vann í veikleikum

Það sem Aron Einar og Sara Björk eiga sameiginlegt er að hafa alist upp í fjölskyldum þar sem þau fengu ómældan stuðning í tengslum við fótboltann. Foreldrar þeirra voru til staðar fyrir þau, leyfðu þeim að vera þau sjálf og gáfu þeim færi á að takast á við mótlæti og velgengni á sínum forsendum. Bæði Sara og Aron eru þekkt fyrir vinnusemi, ósérhlífni og leiðtogahæfileika. Ég held að fjölskyldur þeirra hafi verið þeim miklar fyrirmyndir í að þróast í slíka karaktera.

Það er nákvæmlega ekkert að því að eiga flotta takkaskó, það er frekar þægilegt að æfa innandyra þegar veður er vont (hvað þá að vera skutlað á æfingu) og auðvitað er stuð að vera í besta liðinu og vinna yngri flokka mótin. En hvað er það sem skiptir raunverulega máli?

Hermundur Sigmundsson, prófessor við HR og NTNU í Þrándheimi, hefur skoðað hvaða eiginleikar séu lykillinn að því að skara fram úr (to become expert). Þessir þættir virðast vera:

1. Æfa sig mikið og einbeitt

2. Ástríða (gríðarlegur áhugi á því sem þú gerir)

3. Þrautseigja (e. grit)

4. Grósku hugarfar (e. growth mindset)

5. Góður leiðbeinandi/kennari

(https://www.sciencedirect.com/.../pii/S0732118X19300625...)

Viðtal við Hermund: „Passion sets the direction of your arrow, but grit determines the strength and size of the arrow"

Við þetta má svo bæta að öll erum við með ólíkt erfðamengi. Sumir eru einfaldlega með hraðari vöðvaþræði en aðrir, sumir eru stórir og sumir eru litlir. Aðrir sterkbyggðir eða veikbyggðir. En á þessu höfum við auðvitað enga stjórn.

Æfir barnið þitt fótbolta hjá íþróttafélagi með vel skipulagt starf? Er það með þjálfara sem hvetur, leiðbeinir og nærir áhuga? Ef svo er þá tel ég að grunnurinn sé góður. Það sem þú getur svo gert er að hjálpa barninu að borða hollt og sofa nóg. Fylgjast með fótboltastelpunni- eða stráknum rækta ástríðu sína á íþróttinni á sínum forsendum. Síðast en ekki síst leyfa barninu að takast á við mótlæti og erfiðleika svo það geti þróað með sér þrautseigju. Ef þú gerir þetta, kæri foreldri, þá er ekki hægt að biðja um meira.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA