Leiðtogar

Verkfærakistan
Spekingahornið

Leiðtogar

Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Dr. Viðar Halldórsson

Lektor í félagsfræðum við Háskóla Íslands

vidar@melarsport.is

Leiðtogar

Íþróttaþjálfarar hafa í auknum mæli áttað sig á mikilvægi leiðtoga í íþróttum. Ekki síst því að leiðtogar sinna fjölbreyttum hlutverkum, innan vallar sem utan, og betra er að hafa fleiri leiðtoga en færri. Mismunandi leiðtogar sinna mismunandi þörfum í mismunandi aðstæðum. Leiðtogar hafa það hlutverk að toga hópinn með sér æskilega leið. Þeir skapa stemningu, sýna gott fordæmi og eru tengiliðir á milli félaga sinna og þjálfara.

Það er ekki síður mikilvægt að hjálpa iðkendum að vera leiðtogar í sínu eigin lífi. Að búa til umgjörð sem hvetur iðkendur og hjálpar þeim að taka ábyrgð á eigin frammistöðu, beita sig sjálfsaga og almennt að sýna frumkvæði og sjálfstæði. Með öðrum orðum að hjálpa iðkendum að verða sínir eigin þjálfarar.

Leiðtogar eru af öllum stærðum og gerðum og búa yfir mismunandi eiginleikum. Á meðan sumir láta vel í sér heyra þá leiða aðrir með góðu fordæmi. En það þarf hugrekki til að vera leiðtogi; til að hvetja aðra, vera öflugur  í mótlæti, færa fórnir, gera meira en aðrir, fara ótroðnar slóðir eða taka af skarið. Leiðtogaefni þurfa því hvatningu til að þróa sína leiðtogafærni.

Til að þjálfa leiðtoga er gott að hafa eftirtalda punkta að leiðarljósi:

Frumkvæði

Venja iðkendur strax við að taka ábyrgð og sýna frumkvæði.

Það er hægt að láta iðkendur stjórna upphitun, jafnvel einstaka æfingum, kalla eftir hugmyndum þeirra varðandi starfið, ýta undir þátttöku þeirra á fundum, o.s.frv.

Láta liðsmenn vinna saman í minni hópum og koma með hugmyndir og lausnir. Til dæmis gætu varnarmenn í fótbolta myndað einn hóp sem kemur sér saman um leiðir til að verjast betur í föstum leikatriðum. Miðjuleikmenn gætu myndað annan hóp og sóknarmenn þann þriðja.

Þegar hlé er á keppni er hægt að láta liðsmenn greina leik og aðstæður. Til dæmis er hægt að láta leikmenn alfarið um að ráða ráðum sínum í leikhléum í handbolta og körfubolta – án aðkomu þjálfara. Það ýtir undir leikskilning og hjálpar leikmönnum að taka ákvarðanir í keppni.

Jafningjastuðningur

Ýta undir ábyrgð og hlutverk öflugra einstaklinga sem eru með gott viðhorf.

Þjálfari getur unnið sérstaklega í gegnum þá einstaklinga í hópnum sem geta smitað hópinn af jákvæðum viðhorfum, gildum og vinnubrögðum. Þeir verða framlenging af þjálfaranum í hópnum og miðla upplýsingum frá þjálfara til hópsins og frá hópnum til þjálfara. Slíkir einstaklingar eru lykilaðilar í að mynda stemningu í hópnum.

Láta öfluga einstaklinga í hópnum leiða með góðu fordæmi. Þegar franska karlalandsliðið í handbolta var að æfa á Íslandi fyrir nokkrum árum þá voru það stærstu stjörnur liðsins sem tóku saman bolta, hreinsuðu rusl af íþróttagólfinu og úr klefa eftir æfingar liðsins. Ef þeir ganga vel um, þá gera það allir aðrir.

Verkefni við hæfi hvers og eins: Að rækta leiðtoga og finna þeim verkefni við hæfi.

Leyfa þeim félagslynda að bera ábyrgð á stemningu hópsins, eins og að skipuleggja pizzukvöld, hjólaferð eða að segja sögur og brandara á kvöldvökunni; þeim metnaðarfulla að njóta sín á æfingum, með því að leyfa honum að koma með hugmyndir að keppnum og ákvarðanatöku um  keppnismarkmið hópsins; og þeim sem er með ríka sköpunargáfu að koma með hugmyndir um fjölbreytni í æfingum, nálgun og leikskipulagi fyrir keppni, eða félagsleg athæfi.

Vertu þinn eigin þjálfari

Að vera leiðtogi er einnig að vera leiðtogi í eigin lífi. Þjálfarar geta ekki borið ábyrgð á viðhorfum og hegðun iðkenda, það verða þeir að gera sjálfir. Þjálfarar geta hvatt iðkendur til þess að verða sínir „eigin þjálfarar“. Það er að taka ábyrgð, að mæta á æfingu til að æfa, að setja sér lítil markmið á hverri æfingu, að huga að hvíld, mataræði og endurheimt, o.s.frv.

·         Hægt er að nota fyrirliðahlutverkið á markvissari hátt en oftast er gert. Til dæmis að skipta fyrirliðahlutverki á milli iðkenda (fyrirliðavikur) þar sem allir fá að prófa. Þar er mikilvægt að skilgreina hvað fyrirliði á að gera (sem þjálfari og iðkandi geta gert í sameiningu). Þar sem allir fá að reyna sig við fyrirliðahlutverkið þá hefur þjálfarinn frábært tækifæri til að kenna öllum iðkendum þau æskilegu viðhorf og þá hegðun sem fyrirmyndar fyrirliði á að búa yfir. Eins og mikilvægi þess að leggja sig alltaf fram, vera sterkur í mótlæti, eiga góð samskipti við aðra og þess háttar.

Þjálfari hefur ekki tök á að verða við öllum þörfum allra iðkenda

Gera iðkendum grein fyrir því að þeir eiga ekki bara að mæta á allar æfingar, heldur að mæta til að æfa og vera 100% með hugann við æfinguna. Þjálfari hefur ekki tök á að verða við öllum þörfum allra iðkenda. Hann þarf því að hjálpa iðkendum að vinna statt og stöðugt að því að bæta sig sjálfir.  Mikilvægt er að iðkendur vinni með lítil markmið á hverri æfingu því þá verða æfingarnar markvissari og árangursríkari. 

Vera alltaf 100% einbeitt á æfingunni

Ein fremsta badmintonkona landsins var alltaf með miða inni í spaðaskápnum sínum sem á stóð „100%“. Hún horfði á hann í nokkrar sekúndur fyrir og eftir æfingar og minnti sjálfa sig á að vera alltaf 100% einbeitt á æfingunni og leggja sig alla fram. Eftir æfinguna velti hún fyrir sér hvort það hafði tekist. Það tók ekki langan tíma fyrir hana að venja sig við að vera alltaf 100% á æfingum.

Veita iðkendum ráðgjöf varðandi aukaæfingar og lífsstíl, aðstoð við gerð æfingaáætlana, markmiðasetningar, sem og aðra fræðslu. Það er frumkvæði þjálfarans í þessum efnum sem skapar grundvöll fyrir því að iðkendur gangi á lagið, prófi sig áfram og tileinki sér slík vinnubrögð.

Leiðtogar setja ný viðmið – hækka rána – fyrir sjálfan sig og aðra. Þeir eru góðir karakterar og hjálpa öðrum að verða góðir karakterar!

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA