Að mynda sterka liðsheild

Verkfærakistan
Spekingahornið

Að mynda sterka liðsheild

Birtist fyrir
6/6/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
6/6/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Freyr Alexandersson

Landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu

Að mynda sterka liðsheild

Allir þjálfarar í hópíþróttum eru sammála því að enginn árangur næst nema að lið búi yfir sterkri liðsheild. Það skiptir ekki minna máli að það skapast ekki góðar minningar eða stórfenglegar upplifanir nema liðsheildin sé sterk. En hvernig verður sterk liðsheild til?

Ég held að það sé ekkert eitt rétt svar við þessari mikilvægu spurningu. En ég get sagt frá minni reynslu og því sem hefur virkað fyrir mig.

Fyrir það fyrsta þá þarf þjálfarinn að skilgreina fyrir sjálfum sér og leikmönnum hvað liðsheild merkir í hans augum. Þetta gerist ekki á einum liðsheildarfundi eða við þvingaðar aðstæður, þetta tekur tíma og þarf að innleiða á réttan hátt með öguðum vinnubrögðum og þolinmæði.

Að mínu mati einkenna eftirfarandi þættir sterka liðsheild:

·         Hópur fólks með sameiginlegan draum

·         Lið sem er eftirsóknarvert að vera í

·         Hæfileikar leikmanna sem passa vel saman

·         Vel skilgreind og skýr hlutverk

·         Opin, markviss og hreinskilin samskipti

·         Gleði, ánægja og jákvætt viðmót gagnvart öllum þáttum

·         Hugarfar sigurvegara

·         Mikil skuldbinding allra til liðsins og markmiða þess

·         Ástríða fyrir því að skara fram úr

·         Virðing

·         Vellíðan

Alla þessa þætti þarf svo að skilgreina ennþá frekar, hvað þýðir hvert og eitt atriði?

Þegar leikmenn skilja alla undirliði þess að vera sterk liðsheild þá vita allir nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim til þess að vera hluti af sterkri liðsheild.

Það eru þrjú lykilatriði sem skipta mestu máli til þess að ná fram sterkri liðsheild. Þau eru :

Markmið = Ef hópurinn veit ekki hvert hann er að stefna og hvernig hann á að ná markmiðum sínum næst enginn árangur og engin samheldni.

Samvinna = Það er enginn stærri en liðið. Allir þurfa að vinna saman að settu markmiði. Ef það eru ekki allir að fara í sömu átt þá þarf að bæta úr því strax.

Traust = Það þarf að ríkja fullkomið traust á milli þjálfara, leikmanna og starfsmanna.

Til þess að samvinna og traust verði að sterkum hlekkjum þarf þjálfarinn að vera búinn að skilgreina hlutverk allra og fullkomin virðing borin fyrir öllum hlutverkum.

Þjálfari þarf að hafa hugrekki og virðingu til þess að taka erfiða samtalið. Það koma stöðugt upp erfið augnablik í þjálfun. Vandamálin hverfa sjaldnast af sjálfu sér. Það þarf að taka erfiðu samtölin, ekki bíða með það.

Farsælasta lausn sterkrar liðsheildar er að tækla vandamál á upphafsstigum. Ef það eru allir að fara í sömu átt þá verða vandamálin yfirleitt smávægileg og vel viðráðanleg.

Í lokin er vert að minnast þess að sterkasta vopn þjálfarans er að hafa hæfileikaríkustu leikmennina og þá sem leggja hvað harðast að sér. Leikmenn sem leiða með góðu fordæmi. Ef hæfileikaríkasti leikmaður hópsins er sá sem leggur mestu vinnuna á sig, setur hann viðmið fyrir aðra.

 

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA