Ég er leiðtogi

Verkfærakistan
Spekingahornið

Birtist fyrir
16/1/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
16/1/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Gunnhildur Gunnarsdóttir

Fyrirliði kvennaliðs Snæfells og A-landsliðs Íslands í körfuknattleik

Ég er leiðtogi

Hver og einn einstaklingur þarf að vera leiðtogi í sínu eigin lífi. Með því að taka sjálfstæðar ákvarðanir og standa við þær, sýna frumkvæði og taka ábyrgð á eigin frammistöðu þá ertu þinn eigin leiðtogi. Hlutverk leiðtoga eru mismunandi. Hjá íþróttamanni sem stundar einstaklingsíþrótt þarf bara einn leiðtoga, íþróttamanninn sjálfan. Í liðsíþrótt eru fleiri en einn leiðtogi í hverju liði, á mismunandi sviði.

Ég kem úr liðsíþrótt. Íþrótt þar sem liðið nær ekki árangri nema allir leggi sig 100% fram í verkefnið. Þessir „allir“ eru ekki einungis leikmennirnir sem æfa, heldur einnig þjálfarar, foreldrar, þeir sem standa að liðinu og síðast en alls ekki síst stuðningsmennirnir. Allt þarf að ganga upp til þess að árangur náist.  

allir sem koma að liðinu skipta máli

Ég spila körfubolta með Snæfell í úrvalsdeild kvenna. Þrjú ár í röð hefur Snæfell orðið Íslandsmeistari og á síðasta ári náðum við í fyrsta skipti í sögu Snæfells að verða Bikarmeistarar. Þvílík gleði sem braust út þegar flautan gall í Laugardalshöllinni þann 13. febrúar 2016. Snæfell urðu Bikarmeistarar í fyrsta skipti eftir erfiðan leik við Grindavík. Í Bikarmeistaraliði Snæfells var fjöldinn allur af mismunandi einstaklingum sem stefndu allir að sama markmiðinu, að vinna leikinn. Innanborðs voru leikmenn sem spiluðu nánast allan leikinn, leikmenn sem fengu aðeins að spreyta sig og leikmenn sem fengu ekkert að spila. Að auki voru leikmenn á bekknum sem komust ekki í liðið. Allir þessir leikmenn voru jafn mikilvægir fyrir liðið og voru hluti af hópnum sem skilaði bikarnum heim í Hólm. Auk þessa 20 manna hóps var fjöldinn allur af Hólmurum og velunnurum okkar í stúkunni en þeir sem ekki komust þangað sátu heima fyrir framan sjónvarpið. Allur þessi hópur er ekki síður mikilvægur.

Þegar markmiðum er náð þá er vel fagnað

- Þjálfarar leiksins voru leiðtogar. Þeir tóku ákvarðanir, hverjum ætti að spila, hvaða leikkerfi ætti að setja upp, hvaða leikmenn ætti að tvídekka, auk fleiri. Þeir sáu um að segja okkur til og hvetja okkur til dáða, allar 40 mínúturnar.

leikmenn sem spila lítið eru líka leiðtogar

- Leikmennirnir sem spiluðu meirihlutann af leiknum voru leiðtogar inni á vellinum. Þeir lögðu líf og sál í leikinn. Þeir reyndu allt sem þeir gátu til þess að spila saman sem lið, ná að stoppa andstæðingana og ná sigri.

- Leikmennirnir sem spiluðu lítið voru líka leiðtogar. Þeir komu inná í erfiðum leik, spiluðu nokkrar mínútur og stóðu sig vel. Settust síðan aftur á bekkinn og héldu áfram að hvetja.

- Leikmennirnir sem ekkert fengu að fara inná eða voru ekki í búning voru að mínu mati stærstu leiðtogar Snæfells þann 13. febrúar 2016. Þær voru búnar að æfa alveg jafn mikið og hinar, jafnvel meira, en fengu ekki tækifæri. Þær héldu áfram að hvetja okkur, sama hvernig staðan var, sama hverjar voru inná vellinum. Þær réttu okkur handklæði og brúsa, hvöttu okkur áfram þegar illa gekk og hrósuðu okkur þegar við gerðum eitthvað vel. Að mínu mati langstærstu leiðtogarnir sem til eru.

Bikarmeistarar

Ég tel mig vera leiðtoga. Ég er minn eigin leiðtogi þar sem ég tek sjálfstæðar ákvarðanir og ábyrgð á eigin frammistöðu. Ég er leiðtogi í starfinu mínu sem kennari og leiðtogi í körfuboltaliðinu mínu. Mér finnst ekki leiðinlegt að deila leiðtogahlutverkinu með öðrum. Í lok bikarleiksins tók ég sem fyrirliði Snæfells við bikarnum. Tilfinningin var rosalega góð. Í fyrsta skipti á mínum körfuboltaferli fékk ég að taka á móti bikar. Mér fannst ég hafa skilað leiðtogahlutverki mínu vel í þessum leik. Á þessum tímapunkti var ég þó stoltust af öllum þeim leiðtogum sem voru með mér í þessu verkefni. Liðið mitt, þjálfarar og stuðningsmenn voru mikilvægir leiðtogar í Laugardalshöllinni.  

Það eru allir jafn mikilvægir í liðsíþrótt!

Í gegnum körfuboltaferil minn tel ég mig hafa sýnt ábyrgð og frumkvæði. Með áhuga, metnaði og vilja næst árangur. Ég er leiðtogi og mun reyna mitt allra besta í að móta börnin sem ég vinn með í að verða leiðtogar.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA