Að vinna með gildi á æfingu og í leikjum

Verkfærakistan
Spekingahornið

Að vinna með gildi á æfingu og leikjum

Birtist fyrir
25/9/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
25/9/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Eysteinn Hauksson

Knattspyrnuþjálfari Keflavík

Að vinna með gildi á æfingu og í leikjum

Að taka við hópi barna á æfingu og hittast reglulega yfir árið, er eins og að byggja lítið samfélag. Til þess að byggja gott samfélag þarf að leggja góðan grunn og skapa jákvæða lærdómsmenningu. Þegar við erum að vinna með börnum þá felst sú menning að miklu leyti í framkomu og hegðun. Hvað er það sem á að einkenna þetta samfélag?

‍Hvað er það sem á að einkenna þetta samfélag?

Ein af undirstöðunum fyrir traustu samfélagi er að finna þau gildi sem samfélagið á að byggja á. Þá skiptir máli að byrja einfalt og hjálpa iðkendum að skilja orðið/hugtakið.

Síðan þarf stöðugt að vinna í því að festa þessi gildi í sessi og spyrja sig að því hvernig við vinnum eftir þeim á æfingu sem og í leikjum.

Ég hef verið að prófa mig áfram með knattspyrnuverkefni, sem líklega má tengja við "karakterþjálfun" hjá 6.fl kvenna í Keflavík. Með vissu millibili byrjum við æfingar á að kynna ákveðið gildi eða hugtak með því að segja frá því, hvað það þýðir og hvernig það getur verið íþróttafólki eða íþróttaliðum mikils virði. Síðan er lögð áhersla á að hrósa fyrir þá hegðun á æfingunum sem fylgja, sem tengist því að styrkja viðkomandi hugtak innan hópsins. Það er engum sagt að hann EIGI AÐ VERA svona eða hinsegin, heldur er hugtökunum og mögulegum kostum þeirra einfaldlega lýst og svo er þeim hampað við hvert tækifæri. Stelpurnar eru svo spurðar reglulega, í upphafi æfinga, hver gildin okkar séu og þær telja þau upp og þannig eflast þau vonandi innan hópsins. Svo er reglulega bætt inn nýjum hugtökum, þó alls ekki of oft

Það er engum sagt að hann EIGI AÐ VERA svona eða hinsegin, heldur er hugtökunum og mögulegum kostum þeirra einfaldlega lýst og svo er þeim hampað við hvert tækifæri. 

Gildin/hugtökin sem við höfum frætt stelpurnar um frá því síðasta haust eru átta talsins: 

1. Vinátta: Hvernig sýnir maður vináttu í hóp? Hvernig sýnir maður vináttu í fótboltaleik?. 
2. Viljastyrkur: Sá sem er harðákveðinn í því að geta eitthvað, er líklegur til að geta það, á endanum. 
3. Markmið: Markmiðin halda okkur við efnið og hvetja okkur áfram. 

4. Agi: Að gera það sem maður veit að maður á að gera, þó maður nenni því eiginlega ekki.
5. Liðsandi: Hvaða hegðun gerir félagið okkar betra? Hver eru dæmi um góðan liðsanda eða slæman?
6. Einbeiting: Að láta ekki neitt trufla sig eða taka athyglina frá því sem maður er að gera.
7. Samtakamáttur: Getur þú, sem ert nýbyrjuð að æfa, náð boltanum af þeirri sem er búin að æfa lengst? En ef þið farið fimm saman?
8. GLEÐI: Undirstaða alls góðs sem tengist íþróttum.

Svo má nefna að nýlega byrjuðum við eina æfingu á því að stelpurnar skrifuðu gildin með tússi á æfingaboltana okkar, sem vonandi varð til að stimpla þau enn betur inn í huga þeirra, auk þess sem það ætti að tryggja að gildin séu sjáanleg frá degi til dags. 

Gildin lifa á æfingaboltunum

Þetta munum við svo að sjálfsögðu endurtaka þegar tússið er við það að hverfa. 

Sannur Keflvíkingur

Önnur tilraun sem við höfum verið með í gangi er tengd við hugtakið "Sannur Keflvíkingur" og hvað einkenni hann. Aftan á þessi tvö orð eru svo tengd hin og þessi gildi sem við teljum að geri krakkana að betri félagsmönnum og þar af leiðandi félagið betra. Örfá dæmi: Sannur Keflvíkingur...

- gerir ALLTAF sitt besta 

- tekur vel á móti þeim sem eru að mæta á sínar fyrstu æfingar 

- elskar að gera erfiðar æfingar, sem bæta, hressa og kæta

- kemur heiðarlega fram 

- mætir á allar æfingar (nema mamma/pabbi segi) 

- fer alltaf með rusl í ruslatunnuna, gengur frá eftir sig og skilur æfingasvæðið eftir, eins og hann kom að því 

- gefst ALDREI upp

- hjálpar samherjum sínum 

- veit að æfingin skapar meistarann 

- hefur fulla trú á sjálfum sér 

Svo er óspart hrósað, þegar einhver sýnir fyrirmyndarframkomu með: "Þið gáfust ekki upp! Þið eruð sannir Keflvíkingar." 

"Ha? Tókstu aukaæfingu heima í garði? Þú ert sannur Keflvíkingur!" eða eitthvað í þá áttina. Að lokum má minnast á að ég hef notað fyrirliðahugtakið í svipuðum tilgangi. Þá hef ég hrósað stelpunum fyrir hitt og þetta sem tengist fyrirmyndarframkomu. "Sjáið þið hvað Hildur er fljót að hlaupa og taka saman keilurnar! Þú ert fyrirliði, Hildur!" Á æfingu hjá 6. flokki stelpna í Keflavík geta sem sagt allir verið fyrirliðar í einu.

að lifa gildin út á velli

Ein leið til þess að tengja gildin inn í leiki er að tilgreina eitt gildi sem liðið eigi að leggja sérstaka áherslu á í leiknum (mótinu). Fylgjast sérstaklega með því þegar leikmenn "lifa" gildin út á velli eða milli leikja og jafnvel að fá foreldra til að telja hversu oft þau sáu leikmenn sýna það í verki. Það skiptir máli að allir í kringum æfingahópinn hjálpist að við að styrkja hópinn í því fyrir hvað þetta samfélag stendur.

Fyrir þá sem eru áhugasamir um frekari umræðu um gildisvinnu þá mælum við með að hlusta á stutt viðtal við Þóri Hergeirsson.

 

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA