Félagsfærni

Verkfærakistan
Spekingahornið

Félagsfærni

Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Dr. Viðar Halldórsson

Lektor í félagsfræðum við Háskóla Íslands

vidar@melarsport.is

Félagsfærni

Íþróttamenn – hvort sem er í einstaklingsíþróttum eða í hópíþróttum – eru ávallt hluti af stærri hóp og eiga regluleg samskipti við þjálfara og liðsfélaga. Því er mikilvægt að þjálfa iðkendur í því að tileinka sér góð viðhorf og góða hegðun í samskiptum. Landsliðsþjálfarar í hópíþróttum velja til að mynda ekki endilega „bestu“ leikmennina í landsliðin heldur öllu frekar „réttu“ leikmennina, þ.e. leikmenn sem aðlagast vel, bera virðingu fyrir hverjum öðrum, eru metnaðargjarnir og kunna að vinna í hópi. Góð stemning innan hópsins hjálpar öllum meðlimum hópsins og stuðlar að betri árangri einstaklinga og liða. Góð liðsheild er til að mynda einn af lykilþáttum í árangri íslenskra landsliða á undanförnum árum. Forsenda góðrar liðsheildar er félagsfærni leikmanna.

Þjálfarar geta gegnt lykilhlutverki í að búa til uppbyggilega stemningu og liðsheild innan hópsins með því að skapa umgjörð sem hjálpar iðkendum að vinna saman og læra hvers konar hegðun leiðir til árangurs einstaklinga og hópa.

Til að styrkja félagsfærni iðkenda geta þjálfarar til dæmis unnið með eftirtalda þætti:

·         Viðhorf: Viðhorf einstaklinga stjórna hugsun þeirra og hegðun. Að hafa gott viðhorf er forsenda þess að ná árangri í íþróttum og í lífinu sjálfu.

·         Brýna fyrir iðkendum að leggja sig fram á öllum æfingum – alltaf að gera sitt besta. Iðkendur eiga að einbeita sér að þáttum sem þeir geta stjórnað og þeir geta alltaf lagt sig fram.

·         Nota fyrirmyndir. Gott er að vísa til viðhorfs og hegðunar afreksfólks, sem iðkendur líta upp til, í þeim tilgangi að sýna iðkendum hvernig gott viðhorf hjálpar því að ná árangri. Leikmenn íslenskra landsliða eru til að mynda almennt með mjög gott viðhorf og því góðar fyrirmyndir hvað þetta varðar.

·         Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að viðhorf geta verið smitandi. Ef þjálfari og þeir iðkendur sem stjórna stemningu hópsins sýna gott viðhorf þá fylgja aðrir í kjölfarið. Ef ekki, þá mótar það einnig hópinn. Þjálfari og iðkendur geta því mótað stemningu hópsins.

·         Leggja áherslu á að iðkendur sýni jákvæða hegðun og hugarfar. Jákvæðni er smitandi, felur í sér bjartsýni og skapar gott andrúmsloft.

·         Veita góðri hegðun og framkomu eftirtekt og umbun. Hrós, verðlaun, umfjöllun á heimasíðu félags og fleira getur virkað vel til að styrkja jákvæða og æskilega hegðun. Ekki endilega að hrósa einungis þeim sem voru mest áberandi, heldur ekki síður þeim sem lögðu jafnvel grunninn að góðri æfingu eða góðri keppni með góðu viðhorfi.

·         Ábyrgð og virðing: Ýta undir ábyrgðartilfinningu iðkenda bæði hvað varðar að bera ábyrgð á eigin hugarfari og hegðun og einnig að axla sína ábyrgð gagnvart hópnum.

·         Gott er fyrir þjálfara að setja skýr viðmið um hegðun, mætingar og fleira. Iðkendum líður best þegar það er festa og skýr rammi í starfinu og það setur tóninn fyrir það sem koma skal.

·         Láta iðkendur ganga frá áhöldum, búnaði, búningum, stólum, rusli og slíku og skilja við aðstæður eins og þeir vilja taka við þeim. Að skapa þær venjur að iðkendur gangi alltaf frá eftir sig og skilji við aðstöðu eins og þeir komu að henni.

·         Leggja áherslu á stundvísi (en gera sér grein fyrir að óstundvísi getur verið á ábyrgð foreldra) – tryggja gott upplýsingastreymi.

·         Kenna iðkendum að þeir eiga að umgangast aðra af virðingu. Hafa skýr viðmið um samskipti. Upplagt er að umbuna fyrir góð viðhorf og æskilega hegðun – en ekki einungis fyrir íþróttaárangur. Með því senda þjálfarar skýr skilaboð til iðkenda um hvers konar hegðunar er vænst af þeim. Mikilvægt er að sýna öðrum ávallt virðingu, iðkendum, starfsfólki, foreldrum, dómurum, andstæðingum og félaginu sjálfu. Þjálfarinn er fyrirmynd hvað þetta varðar og þarf alltaf að sýna gott fordæmi. Með því leggur hann áherslu á æskilega hegðun. Varast ber að sýna pirring, reiði eða nota kaldhæðni í samskiptum við aðra. Ef þjálfarinn sýnir æskilega hegðun þá er líklegra að iðkendur geri það einnig.

·         Gera iðkendum kleift að setja sig í spor annarra. Gefa þeim færi á að kynnast utan vallar, finna hvað þeir eiga sameiginlegt og hvað er ólíkt með þeim. Nánari tengsl utan íþrótta styrkja hegðun og samstöðu innan hópsins.

·         Einnig er hægt að hjálpa iðkendum að setja sig í spor annarra innan vallar. Til dæmis er hægt að láta iðkendur af og til skipta um leikstöður, eins og að láta handboltaskyttu fara á línuna og línumann í skyttustöðuna. Með því að auka færni iðkenda í að setja sig í spor annarra þá aukum við virðingu þeirra fyrir hlutverkum hvers annars og aukum samheldni innan hópins.

·         Að vera í góðum hóp eða góðu liði hjálpar einstaklingum að bæta sig. Hvetja iðkendur til þess að vinna saman. Bjóða hverjum öðrum aðstoð eins og að senda fyrir, vera í marki, telja ferðir og þess háttar. Gott er að benda iðkendum á hvað aðrir í hópnum eru mikilvægir í þessu tilliti. Mikilvægt er að hrósa fyrir aðstoð, eins og stoðsendingu, varnarleik sem skilar marki hinum megin, eða keppnisviðhorf á æfingum sem gerir öðrum kleift að bæta sig. Þjálfari ætti að hvetja iðkendur til að gera slíkt hið sama.

·         Virkja iðkendur í starfi félagsins. Iðkendur ættu að koma að undirbúningi móta, hjálpa til við dómgæslu, tiltekt, tónlistarstjórnun og fleira. Það eykur ábyrgðartilfinningu, skynjun á íþróttafélaginu í víðara samhengi og frekari tengingu við félagið.

·         Samkennd: Þá er oft gott að láta hópinn gera eitthvað saman fyrir utan æfingatíma – sem skapar félagslega samkennd og myndar stemningu. Iðkendur óska þess oftast að það sé meira gert félagslega í íþróttum en að æfa og keppa.

·         Til dæmis er hægt að standa markvisst fyrir félagslegu athæfi í stað æfinga, jafnvel einu sinni í mánuði. Hugmyndirnar eru margar. Hægt er að fara í óvissuferð, hjólatúr, sund, fjallgöngu, horfa á íþróttaleik, fara í heita pottinn, o.s.frv.. Það er um að gera að leita eftir hugmyndum frá iðkendum.

·         Nota fjáraflanir eins og dósasafnanir og slíkt sem félagslega samveru. Allir taka þátt og vinna saman að ákveðnu verkefni, utan við æfingasvæðið. Foreldrar og iðkendur vinna saman. Iðkendur læra að það þarf að vinna fyrir hlutunum (að þeir komi ekki af sjálfu sér) og með því að foreldrar taki einnig þátt þá styrkjast tengsl foreldra við iðkendur (vini barna sinna). Slíkt myndar félagsauð sem er verðmætur fyrir iðkendur og íþróttafélagið.

·         Hafa félagsleg athæfi þvert á íþróttir. Til dæmis hittast þeir sem æfa handbolta og sund og gera eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt saman. Það eykur félagstengsl iðkenda í ólíkum greinum innan félagsins,  eflir félagsvitund og víkkar sjóndeildarhring  iðkenda þar sem þeir geta lært æfingar og aðferðir hver af öðrum. Einnig er tilvalið að blanda saman strákum og stelpum. 

·         Gera samskiptasamninga við iðkendur um viðhorf og hegðun. Í slíkum samningum skuldbinda þjálfari og iðkandi sig við að vinna saman að ákveðnum verkefnum – að ná árangri. Þar er hægt að setja viðmið um mætingu á æfingar, viðhorf á æfingum og í keppni, mataræði, lífsstíl og fleira. Kjörið tækifæri til að setja skýr markmið og umbuna fyrir árangur.

Með markvissum aðgerðum getur þjálfarinn þjálfað iðkendur í því að tileinka sér góð viðhorf, sýna æskilega hegðun og að verða góðir „liðsmenn“ – og þannig myndað stemningu sem hjálpar bæði iðkendum og hópnum að ná árangri.

Með því móti erum við ekki einungis að sinna afreksgildi íþrótta heldur einnig uppeldisgildi þeirra þar sem iðkendur tileinka sér hegðun sem nýtist þeim einnig á öðrum vettvangi, utan íþrótta.

Við getum þjálfað góða karaktera sem standa sig vel innan vallar sem utan!

 

 

tyz��N~5

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA