Enginn getur allt en allir geta eitthvað

Verkfærakistan
Spekingahornið

Enginn getur allt en allir geta eitthvað

Birtist fyrir
30/9/2016
dögum síðan.
Birtist fyrir
30/9/2016
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Steindór Gunnarsson

Sundþjálfari og grunnskólakennari

steindor.gunnarsson@njardvikurskoli.is

Enginn getur allt en allir geta eitthvað

Mitt viðhorf í þjálfun er það að enginn getur allt en allir geta eitthvað, að ekkert fæst með engu, að vinnan göfgar okkur, að íþróttaiðkun á að gleðja okkur og að gott sjálfstraust sé lykillinn að flestum dyrum í lífinu.

Talandi um sjálfstraust þá kem ég ekki úr sundheiminum og það að fara að þjálf sund var ekki alveg í spilunum miðað við mína sundgetu. Sjálfstraustið við fyrstu skrefin í þjálfuninni var því ekki mikið. Fyrir tilviljun datt ég inn í þessa íþrótt sem heillaði mig, ég fann löngun til að gera stöðugt betur. Með miklum áhuga og mikilli vinnu komst ég inn í þennan heim og hvert framfaraskref sem mitt íþróttafólk tók elfdi sjálfstraust mitt og áhuga.

Ég átti mér draum og ég setti mér markmið, markviss vinna gerði drauminn að veruleika. Í gegnum tíðina hef ég náð góðum árangri með þá hópa sem ég hef stýrt, en mest um vert þykir mér samt að sjá það íþróttafólk sem ég hef þjálfað fullt sjálfstrausts standa sig afar vel í því sem það tekur sér fyrir hendur í lífinu. Gott, öflugt og skipulagt vinnuframlag leiðir til framfara í öllu, hvort sem það er í námi, íþróttum eða almennt í lífinu. Framfarir efla sjálfstraustið.

Ég fræði mína íþróttamenn markvisst um að æfingarnar séu einn af mörgum mikilvægum þáttum í þjálfuninni, en rétt þjálfun innihaldi allt í senn; góða næringu, markvissar æfingar, góða hvíld, jákvæðni, góða andlega líðan og gott sjálfstraust. Því þarf að vinna markvisst í þessum þáttum. Ég hvet þau jafnframt til að leggja rækt við námið, að eiga tíma með vinum og fjölskyldu, og skipuleggja sinn tíma vel þannig að allt gangi upp, líkt og þau þurfa að gera þegar þau eignast fjölskyldu.

Ég reyni að skapa þannig umhverfi í mínum hópum að öllum líði vel og allir séu óhræddir að tjá sig við mig og liðsfélagana, því góð félagsfærni og jákvæð samskipti leiða til öflugra sjálfstrausts hjá einstaklingnum og hópnum.

Ég legg þjálfunina þannig upp að ég næ samstarfi við íþróttamennina til að vinna markvisst í sínum sterku og veiku hliðum þannig að þeir/við höfum alltaf eitthvað jákvætt til að styðjast við í ferlinu. Ef ekki gengur vel í okkar sterku hliðum þá getum við eflt okkur andlega með að sjá framfarirnar á veiku hliðunum. Þannig styrkjum við meðvitað og ómeðvitað sjálfstraust okkar.

Ég legg áherslu á að íþróttamennirnir séu góðir liðsfélagar, með gott hugarfar þ.e. að þeir gefist ekki upp þótt á móti blási, og að bakslag sé bara til að herða okkur, að þeir séu óhræddir við að leggja hart að sér og að æfingahópurinn sé eins og samhent og sterk fjölskylda. Ég vil að íþróttamennirnir eigi sér draum, setji sér markmið samkvæmt því og nálgist drauminn í smáum skrefum. Draumurinn er upphafið að öllu.

Nálgun íþróttamannanna á íþróttina á að vera eins og við tökumst á við lífið. Að njóta, gleðjast, vera jákvæð, vera sanngjörn við okkur sjálf, leggja hart að okkur, hafa metnað, eiga draum, eiga markmið þannig höldum við neistanum logandi, en þessi neisti er lífið.

 

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA