Áhugahvöt

Verkfærakistan
Spekingahornið

Áhugahvöt

Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
Birtist fyrir
1/10/2016
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Dr. Viðar Halldórsson

Lektor í félagsfræðum við Háskóla Íslands

vidar@melarsport.is

Áhugahvöt

Árangur í íþróttum barna og ungmenna mælist jafnan í því hvort iðkendur hafi ánægju af íþróttastarfinu og hvort þeir standi sig vel í íþróttakeppni. Þessir þættir fara oftast saman. Til að ná hámarksárangri í íþróttum þurfa iðkendur að æfa vel í lengri tíma og leggja sig ávallt fram á æfingum og í keppni. Það er áhugahvöt þeirra sem mótar viðhorf þeirra til íþróttastarfsins og er grunnurinn að þeim árangri sem þeir koma til með að ná. Því meiri sem áhuginn er því betra verður viðhorf þeirra til æfinga og keppni sem leiðir af sér aukna skuldbindingu og árangur á öllum sviðum. Grundvallarforsenda í öllu íþróttastarfi ætti því að vera að styrkja áhuga barna og ungmenna á íþróttastarfinu. Að iðkendur njóti íþróttarinnar og rækti með sér djúpstæðan áhuga og ástríðu á íþróttinni. Þar sem lagður er grunnur að íþróttaiðkun til framtíðar.

Eitt helsta hlutverk þjálfara er að skapa jákvætt og hvetjandi andrúmsloft á æfingum og í keppni. Það á að vera gaman að æfa. Börn og ungmenni byrja að stunda íþróttir af því það er skemmtilegt og hætta þegar það hættir að vera skemmtilegt. Þegar það er gaman þá líður iðkendum vel á æfingum og í keppni en þegar ekki er gaman þá bitnar það á frammistöðu þeirra.

Þjálfarar eru í beinum tengslum við iðkendur í hverri viku og gegna lykilhlutverki í því að móta og viðhalda áhuga þeirra á íþróttinni. Iðkendur eru sérstaklega móttækilegir fyrir þeim skilaboðum sem þjálfarinn setur. Áherslur eiga að beinast að því að hafa æfingar skemmtilegar, fjölbreyttar og spennandi. Með því móti er hægt að auka áhuga, hreyfiþroska og hreyfifærni, draga úr álagsmeiðslum og brottfalli. Auk þess eru iðkendur í slíku umhverfi óhræddir við að reyna á sig, prófa sig áfram og gera mistök, sem eru allt mikilvægir þættir og ýta undir jákvæða upplifun af íþróttaiðkuninni, og gera iðkendum kleift að bæta færni sína og viðhalda áhugahvötinni.

Ánægjan og leikgleðin eru undirstaða alls sem á eftir kemur. Það ætti því að vera ein af lykilforsendum hvers þjálfara að hlúa sérstaklega að þessum þáttum.

Hér koma nokkur góð ráð fyrir þjálfara um hvernig hægt er að skapa umgjörð sem er ánægjuleg og árangursrík fyrir iðkendur.

·         Líkamleg áreynsla: Það veitir vellíðunartilfinningu að reyna á sig líkamlega. Til að iðkendum líði vel á æfingum, sem og eftir æfingar, er mikilvægt að hafa líkamlega áreynslu á æfingum. Að reyna á sig þjálfar ekki einungis þol heldur veita slíkar æfingar einnig vellíðan. Á æfingum er mikilvægt að halda góðu „tempó“ til dæmis með því að fækka „dauðum“ stundum.

·         Gott skipulag þjálfara gerir það að verkum að æfingatíminn nýtist betur og betra flæði verður á milli einstakra æfinga. Það fer því minni tími í að bíða eftir því að þjálfarinn setji upp næstu æfingu.

·         Iðkendur þurfa að fá að reyna sig með því að gera fullt af tilraunum. Það bætir færni og er skemmtilegt. Því er gott að huga að því að minnka raðir með því að hafa til dæmis minni hópa, minni velli, fleiri stöðvar, fjölga mörkum, körfum eða hverju því sem æfingin beinist að. Allt er þetta gert til að fjölga tilraunum.

·         Að sama skapi er mikilvægt að gera iðkendum kleift að ná settum markmiðum. Það er til dæmis hægt með því að reyna að fjölga árangursríkum tilraunum. Hægt er að lækka körfur, til að iðkendur hitti oftar; spila á stærri mörk, til að þeir skori oftar; eða minnka vegalengdir, til að þeir nái fleiri ferðum. Það þarf þó að gæta að jafnvægi þar sem verkefnin mega hvorki vera of erfið né of létt.

·         Fjölbreyttar æfingar: Þó nauðsynlegt sé að æfa sömu færnina aftur og aftur þá er mikilvægt að reyna að gera það á fjölbreyttan hátt.

·         Hægt er að nota mismunandi æfingar til að æfa sama hlutinn, koma reglulega með nýjar æfingar eða ný afbrigði af þeim æfingum sem notaðar hafa verið. Það kemur í veg fyrir leiða, er spennandi og heldur iðkendum á tánum. Gott er fyrir þjálfara að safna æfingum saman í nokkurs konar æfingabanka og vera vakandi fyrir nýjum æfingum.

·         Einföld leið til að auka fjölbreytni á æfingum er að hafa annars konar íþrótt/leiki í upphitun. Öllum aldurshópum finnst gaman að fara í leiki - meira að segja fullorðnum. Það getur til dæmis verið sniðugt fyrir handboltalið að hita upp í körfubolta; fyrir fótboltalið að hita upp í dansi; og fyrir badmintonhópinn að hita upp í skotbolta. Aukin fjölbreytni á æfingum eykur skemmtanagildi æfinga og getur líka virkað sem gott hópefli.

·         Allir eru mikilvægir: Það er mikilvægt að allir iðkendur finni til sín. Þjálfarar þurfa að gera sér grein fyrir styrkleikum hvers og eins og miðla þeim skilaboðum til iðkenda.

·         Gott er fyrir þjálfara að þekkja eitthvað til allra iðkenda. Ekki einungis að þekkja þá með nafni heldur að afla sér vitneskju um hagi þeirra, önnur áhugamál, vonir og væntingar. Það styrkir samband þjálfara og iðkenda, skapar traust, þar sem iðkandanum finnst hann vera mikilvægur í augum þjálfarans.

·         Iðkendur eru oftast mjög meðvitaðir um veikleika sína, en síður um styrkleika sína. Sjálfsmynd iðkenda eflist ef hún er mótuð út frá styrkleikum þeirra, frekar en veikleikum. Með sterkari sjálfsmynd líður iðkendum betur í íþróttum og finna betur til sín. Það þarf að gera iðkendum grein fyrir styrkleikum sínum. Öll erum við ólík og öll höfum við okkar styrkleika og veikleika. Það eru allir góðir í einhverju og það eru ýmsir eiginleikar sem eru mikilvægir í íþróttum. Sumir iðkendur eru með góða tækni, aðrir sterkir eða liðugir, sumir með gott hugarfar, á meðan aðrir eru góðir liðsmenn. Þjálfarar þurfa að gera iðkendum grein fyrir styrkleikum sínum og vinna að því að draga fram kosti hvers og eins í stað þess að vinna aðeins að því að koma í veg fyrir veikleika iðkenda.

·         Einstaklingssamtöl eru góð leið til að styrkja tengsl þjálfara og iðkenda. Í þeim er hægt að fara yfir styrkleika – sem og hvað þarf að bæta – aðstoða iðkanda við að setja sér markmið og almennt að styrkja tengsl þjálfara og iðkenda.

·         Ein góð aðferð til að iðkendur finni til sín er að láta alla iðkendur sem æfa saman skrifa eitthvað jákvætt um hvern annan á lítil blöð, safna blöðunum saman og afhenda iðkendum í umslagi við gott tækifæri.

·         Virk og nákvæm endurgjöf: Það virkar best að þjálfari hrósi eða gagnrýni sem fyrst í kjölfar hegðunar. Mikilvægt er að temja sér að nota jákvæða endurgjöf eins og hrós og hvatningu frekar en gagnrýni og skammir.

·         Endurgjöfin á að beinast að hegðun iðkandans en ekki að iðkandanum sjálfum. Það er ekkert að persónu iðkandans en það er kannski eitthvað í hegðun hans sem hann þarf að laga.

·         Góð leið til að gagnrýna er að nota „samlokuaðferðina“ svokölluðu. Að byrja á að segja eitthvað jákvætt um iðkandann, koma svo með það sem þarf að bæta og enda á uppbyggilegum nótum. Með því móti eru samskiptin á jákvæðum nótum og iðkandinn fer með góða tilfinningu út úr samtalinu, en jafnframt skýr skilaboð um hvað hann þarf að bæta eða gera öðruvísi.

·         Hrósa fyrir viðleitni en ekki aðeins fyrir tilraunir sem heppnast. Iðkendur eru að æfa til að verða betri og munu gera fullt af mistökum, eða árangurslausum tilraunum, á leiðinni. Lykilatriði er að iðkendur séu ekki hræddir við að reyna, eða við að gera mistök. Mistök eru góð. Það nær enginn árangri nema að gera fullt af heiðarlegum mistökum.

·         Tilgangur æfinga er að iðkendur séu að leggja sig fram og reyna það sem lagt var upp með. Því er mikilvægt að hrósa iðkanda fyrir tilraun sem heppnast ekki, ef hann reynir að beita réttri tækni, frekar en tilraun sem heppnast, þar sem hann beitir ekki réttri tækni. Hrósa fyrir tilraunir að settu marki, en ekki aðeins fyrir tilraunir sem heppnast.

·         Ekki ofnota hrós því þá fer það að missa marks.

·         Uppbyggileg skilaboð: Þjálfarar geta gert iðkendum kleift að njóta þess að keppa með því að draga úr alvarleika úrslita. Það á fyrst og fremst að vera skemmtilegt að æfa og keppa. Iðkendur eiga frekar að keppa við sjálfa sig – að gera betur í dag en í gær – en að vera of uppteknir af samanburði við aðra. Því oft getur slíkur samanburður verið óraunhæfur þar sem mikill þroskamunur getur verið á iðkendum í sama flokki. 

·         Reyna að miðla því til iðkenda að  árangur og sigrar byggja á stjórnanlegum innri þáttum eins og viðhorfi, vilja og vinnusemi, frekar en heppni og meðfæddum hæfileikum.

·         Gera iðkendum grein fyrir því að slæmri hegðun og röngu viðhorfi fylgja slæmar afleiðingar. Til að hafa áhrif á óæskileg viðhorf og hegðun þá þurfa iðkendur að taka afleiðingum gjörða sinna. Til dæmis ef iðkandi mætir of seint og leggur sig ekki fram á æfingum þá fer hann á varamannabekkinn – þrátt fyrir að hann eigi að vera besti leikmaður liðsins. Best er að verðlauna frekar fyrir viðhorf en árangur.

·         Leggja áherslu á viðhorf og frammistöðu iðkenda frekar en sigra og ósigra. Iðkendur geta lagt sig alla fram og tapað eða lagt sig ekki fram og sigrað. Viðhorf þeirra er lykilatriði.

·         Kenna iðkendum að njóta þess að leggja sig alla fram og sigra og finna stoltið sem af því hlýst – að hafa skilað vel heppnuðu dagsverki – án þess að gera lítið úr andstæðingum.

Þjálfarar geta skapað jákvætt og hvetjandi andrúmsloft á æfingum og í keppni sem ýtir undir jákvæða upplifun iðkenda. Í slíku andrúmslofti njóta iðkendur sín og eru óhræddir við að takast á við áskoranir, prófa sig áfram og gera mistök – sem er besta leiðin til að læra og bæta sig. Áhugasamir og ánægðir iðkendur munu leggja sig betur fram og njóta sín betur í keppni.

Þeir eru góðir karakterar.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA